Novo Nordisk tilkynnti fyrr í dag að það hefði sagt upp starfsmanni sínum í kjölfar þess að danski ríkissaksóknarinn kærði hann fyrir alvarleg fjárhagsbrot, það helsta ólögmæt innherjaviðskipti með hlutabréf fyrirtækisins. Viðkomandi starfsmaður er ekki í hópi yfirmanna en hafði aðgang að upplýsingum sem geta haft áhrif á gengi hlutabréfa Novo Nordisk.

Í tilkynningunni kemur fram að Novo Nordisk vinni með saksóknaraembættinu að rannsókn málsins og að enn sem komið er liggi aðrir starfsmenn félagsins ekki undir grun um ólögmæta viðskiptahætti eða innherjasvik. Ekki sé þó unnt að upplýsa frekar um gang málsins meðan á rannsókn þess stendur yfir.

Yfir 26 þúsund starfsmenn

Novo Nordisk er eitt stærsta fyrirtæki á sviði heilbrigðismála á Norðurlöndum og sérhæfir sig sérstaklega í meðhöndlun sykursjúkra. Það framleiðir og selur m.a. margvíslegan búnað fyrir heilbrigðisstofnanir. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Danmörku og eru á launaskrá þess ríflega 26 þúsund manns.