Í grein eftir Óttar Guðjónsson, hagfræðing og framkvæmdastjóra Lánasjóðs sveitarfélaga, í Morgunblaðinu í dag rifjar hann upp það sem hann kallar ærandi þögn um innherjaviðskipti formanns Viðreisnar.

Seldi fyrir 132 milljónir

„23. nóvember 2015 seldi Benedikt Jóhannesson, formaður stjórnar Nýherja, og aðilar tengdir honum samtals 9.000.000 hluti í Nýherja á genginu 14,7 og því söluandvirðið 132.300.000 kr,“ segir Óttar í greininni.

„Þann 3. desember tilkynnti Nýherji að selt yrði nýtt hlutafé í Nýherja allt að 40.000.000 hlutir eða 9,76% af útistandandi hlutafé. Það er því ljóst að formaður stjórnar og aðilar honum tengdir seldu 2,196% af hlutafé félagsins aðeins 10 dögum áður en félagið tilkynnir hlutafjáraukninguna.“

Formaður stórnar grunlaus um hlutafjáraukningu?

Segir hann að upplýsingar um hlutafjáraukningu hafi marktæk áhrif á hlutabréfaverð og því hafi Nýherji talið rétt að birta Kauphallartilkynningu um aukninguna.

„Þá vaknar spurningin hvort hlutafjáraukninguna hafi borið að með svo skyndilegum hætti að formaður stjórnar væri fullkomlega grunlaus um að slíkt stæði til þegar hann og aðilar honum tengdir seldu hlutabréf sín,“ segir Óttar og vísar í skilgreiningu laga um innherjaviðskipti.

„Með innherjaupplýsingum er átt við nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar og varða beint eða óbeint útgefendur fjármálagerninga, fjármálagerningana sjálfa eða önnur atriði og eru líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna ef opinberar væru...“

Sækist nú eftir sæti á Alþingi

Segir hann þetta kalla á skýringar, einkum þegar í hlut á einstaklingur sem nú sækist eftir sæti á Alþingi.

„Það er gríðarlega mikilvægt að traust ríki um að lög séu virt í verðbréfaviðskiptum og að viðskipti eins og þessi séu rannsökuð hratt og örugglega,“ segir Óttar.

„Þá er mikilvægt að menn njóti jafnræðis fyrir lögum en tveir einstaklingar hafa á síðustu árum hlotið dóm fyrir ólögleg innherjaviðskipti. Í þessu tilviki er hægagangur eftirlitsaðila farinn að rýra traust á markaðnum og eftirlitsstofnunum hans.“

Benedikt hefur svarað fyrir sig.