Stefán B. Gunnlaugsson dósent við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri og sérfræðingur hjá íslenskum verðbréfum segir að ekkert samhengi sé á milli ávöxtunar innherja og hvort að innherjar væru að kaupa hlutabréf. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn hans sem RÚV segir frá en Stefán hefur rannsakað íslenska hlutabréfamarkaðinn frá því að hann var stofnaður árið 1993 eða í tuttugu ár.

„Það kom mér verulega á óvart að það er í raun ekkert á viðskiptum á íslenskum hlutabréfamarkaði að græða, semsagt það var ekkert samhengi á milli ávöxtunar innherja og hvort að innherjar væru að kaupa hlutabréf. Fyrirfram hefði maður gert ráð fyrir því að ef að innherjar kaupa hlutabréf þá séu horfur góðar og hlutabréf hækki meira og ef að þeir selji hlutabréf þá er líklegt að í framhaldinu séu horfur slakar og hlutabréf lækki. En niðurstöður voru mjög skýrar það var ekkert samhengi á milli ávöxtunar og viðskipta innherja,“ segir Stefán í samtali við RÚV.

Hann segist jafnframt ekki kunna neinar skýringar á þessu. „Kannski voru íslenskir innherjar verri í viðskiptum en aðrir, sem mér finnst þó reyndar ólíklegt. Kannski var markaðurinn bara svona réttur og íslenskir innherjar sýndu betri hegðun en aðrir, ég hef ekki hugmynd um það,“ segir Stefán.