Innihald viljayfirlýsingar Arion banka og Þróunarbanka Kína er trúnaðarmál, að því er segir í svari Arion banka við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um hvað samningur fyrirtækjanna feli í sér.

Þegar fríverslunarsamningur Íslands og Kína var staðfestur um miðjan apríl var tilkynnt um undirritun fimm viðskiptasamninga milli íslenskra og kínverskra fyrirtækja, þar á meðal umræddan samning milli Arion banka og Þróunarbanka Kína.

„Innihald viljayfirlýsingarinnar er trúnaðarmál en segja má að um nokkuð almenna samstarfsviljayfirlýsingu sé að ræða. Viljayfirlýsingin, sem og fleiri samningar sem undirritaðir voru við sama tækifæri, er gott dæmi um þann áhuga sem er til staðar í Kína á Íslandi og þeim tækifærum sem hér liggja,“ segir í svari bankans.