Innistæðum ÍLS-sjóðs á innlánsreikningum Seðlabanka Íslands verður dreift niður á viðskiptabankana. Þetta kom fram í svari Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, við óundirbúinni fyrirspurn Miðflokksmannsins Bergþórs Ólasonar.

Síðastliðinn þriðjudag tilkynnti ríkisstjórnin aðgerðir til að bregðast við efnahagsþrengingum í kjölfar Covid-19 veirunnar. Var þess meðal annars getið að innistæður ÍL-sjóðs, sem varð til um áramótin við uppskiptingu Íbúðalánasjóðs og stofnun húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, í Seðlabankanum verði fluttar á innlánsreikninga banka. Með því er stefnt að því að styðja svigrúm banka og lánadrottna til að veita lánafyrirgreiðslu til viðskiptamanna sinna.

Sjá einnig: Lækki vexti á skuldabréfamörkuðum

„Ríkissjóður getur aukið laust fé í umferð. Eins og sakir standa sjáum við ekki annað en að það sé ágætis lausafjárstaða í fjármálakerfinu. En við sjáum fyrir okkur að geta fært innistæður ÍL-sjóðs, sem í dag eru rúmir 30 milljarðar, inn í bankakerfið til að auka lausafjárstöðu þar eftir því sem þörf krefur. Þetta gæti verið aðgerð sem við myndum grípa til mjög bráðlega,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á blaðamannafundinum á þriðjudag.

Á þingfundi í dag spurði Bergþór hvort slíkt teldist almennileg aðgerð stjórnarinnar í ljósi þess að Seðlabankinn hefði tilkynnt í október í fyrra að fækkað yrði í hópi þeirra sem geta átt viðskiptareikning í bankanum. ÍLS átti þar um 77 milljarða króna um mitt síðasta ár samkvæmt árshlutareikningi. Breyting SÍ á að taka gildi um næstu mánaðarmót.

„Það var ekki búið að taka ákvörðun um að féð færi í viðskiptabankana. Það hafði verið nefnt sem einn möguleiki en ákvörðunin er ný í þessu samhengi. Sú ákvörðun að dreifa fénu á viðskiptabankana, hún er ný í þessu samhengi. Áður var horft til tiltekinna banka en nú verður þessu dreift á alla bankana með það að marki að þeir hafi svigrúm til að veita fyrirgreiðslu,“ sagði Katrín í svari sínu.