Mark Sismey-Durrant, sem er yfirmaður IceSave í Bretlandi, sagði í dag í viðtali við BBC-4 í Bretlandi að eigendur IceSave-innlánareikninga þyrftu ekki að óttast um sparifé sitt: „Áhyggjur af ástandi bankans eru óþarfar. Um 63% af okkar fjármögnun eru innlán, svo að lausafjárstaða bankans er sterk,” segir Sismey-Durrant, og jánkar þegar hann er spurður um hvort innistæður sé hægt að taka út hvenær sem er.

Tryggvi Þór Herbertsson, efnahagsráðgjafi forsætisráðherra, segir í samtali við BBC íslenska ríkið munu geta stigið fram ef að frekari vandamál yrðu á íslenskum bönkum: „Við gætum klárlega komið banka til bjargar. Íslenska bankakerfið er afar stórt í samanburði við hagkerfið í heild, en ég held engu að síður að við gætum mætt hugsanlegum vandamálum því efnahagsreikningur bankanna er afar sterkur.”