Japönsku bílaframleiðendurnir Toyota og Nissan innkalla nú 6,5 milljónir bifreiða um heim allan vegna galla í loftpúðabúnaði. BBC News greinir frá þessu.

Toyota þarf að innkalla tæplega fimm milljónir bifreiða af þessum sökum, en þar á meðal eru bifreiðar af tegundunum Corolla og Vitz sem framleiddar voru frá mars 2003 til nóvember 2007. Nissan innkallar um 1,56 milljónir bifreiða.

Báðir framleiðendurnir segjast hafa brugðið á þetta ráð svo hægt sé að rannsaka vandann. Engin slys eða meiðsli hafi orðið á fólki vegna gallans.