Bifreiðaumboðið BL Hyunday innkallar 49 Hyundai Kona EV rafmagnsbifreiðar vegna of þungra bremsupetala að því er Neytendastofa greinir frá á vefsíðu sinni.

Bifreiðarnar, sem eru af árgerð 2018 til 2020, eru sagðar með hugbúnaðarvillu sem mögulega geti valdið því að bremsupetalinn verði þungur en hægt er að gera við þá með hugbúnaðaruppfærslu.

Verður viðkomandi bifreiðaeigendum tilkynnt um innköllunina bréfleiðis eða símleiðis en um er að ræða rafknúna smájeppa. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum eru rafbílar nú um fjórðungur allra nýskráðra bíla hér á landi.

Stofnunin hvetur jafnframt bifreiðaeigendur til að fylgjast vel með hvort verið sé að innkalla þeirra bifreiðar og hafa sambandi við umboðið ef þeir séu í vafa.