*

þriðjudagur, 9. mars 2021
Innlent 11. janúar 2021 17:20

Innkalla Monster orkudrykki

Of mikið af própýlenglýkól aukaefninu í tveim tegundum orkudrykkja frá Coca Cola. Vatnsbindandi og örverueyðandi efni.

Ritstjórn
Coca Cola European Partners á Íslandi hét áður Vífilfell en fyrirtækið er enn í húsa í Stuðlahálsi 1 í Reykjavík, en þangað geta viðskiptavinir skilað drykkjunum tveimur sem sjást hér að neðan.
Haraldur Guðjónsson

Coca Cola á Íslandi, sem áður hét Vifilfell, innkallar tvær gerðir af Monster orkudrykknum því þær hafa of mikið af aukaefninu própýlenglýkól, eða E1520, en efnið er sagt hafa bæði vatnsbindandi eiginleika og örverueyðandi áhrif. Það er ekki einungis notað í drykki heldur einnig í sjampó og lyf.

Um er að ræða tegundirnar Monster Lewis Hamilton LH 44 og Monster Vanilla Espresso, en báðar eru þær framleiddar í Hollandi og seldar í verslunum Aðfanga, það er Hagkaup, sem og í verslununum Fjarðarkaup, Heimkaup, Iceland, Kjörbúðin, Krambúðin, Melabúðin, Miðstöðin, N1, Nettó, Tíu-ellefu og Kassinn.

Matvælastofnun bendir þeim sem hafa keypt umræddar vörur á að skila þeim til Coca Cola European Partners á Íslandi að Stuðlahálsi 1 í Reykjavík gegn endurgreiðslu eða í skiptum fyrir samskonar vöru.