BL ehf. hefur tilkynnt Neytendastofu að innkalla þurfi 48 bifreiðar af tegundinni Jagur I-Pace. Ástæðan fyrir innkölluninni er sú að nauðsynlegt er að endurforrita vélartölvu vegna reikningsskekkju en sú skekkja hefur áhrif á hemlakerfi bifreiðanna.

Þá hefur sama stjórnvaldi einnig borist tilkynning frá Suzuki Bílum ehf. um að innkalla þurfi 490 Suzuki Swift bifreiðar. Á ný er um forritunargalla í tölvu að ræða en í þessu tilfelli hefur gallinn áhrif á loftpúða bifreiðanna.

Gallinn felur í sér að loftpúðarnir geta sprungið út ef afturhlera er skellt aftur. Við það getur gardínu og hliðarvörn sprungið út ásamt sætisbeltastrekkjara. Í verstu tilfellum getur slíkt slasað farþega bifreiðarinnar.

Umboðin munu hafa samband við eigendur bæði bréfleiðis og símleiðis. Séu eigendur í vafa um það hvort innköllunin nái til þeirra bifreiða er þeim bent á að hafa samband við umboðið.