Talið er að kostnaður Toyota vegna innköllunar á bifreiðum muni nema allt að 2 milljörðum Bandaríkjadala.

Kostnaðurinn kemur til vegna viðhaldskostnaðar sem fylgir því að innkalla bifreiðarnar sem og ætlað tap vegna minnkandi sölu sem Toyota áætlar þó, með fyrirvara, að verði minniháttar.

Sem kunnugt er hefur Toyota innkallað  bifreiðar í Bandaríkjunum, Evrópu, Mið-Austurlöndum, S-Ameríku og í Afríku vegna galla í eldsneytisgjöf bifreiðanna. Alls hafa um 8 tegundir verið innkallaðar en þó er rétt að taka fram að engin slys hafa orðið vegna gallans.

Nú er unnið að endurgerð söluáætlunar fyrir árið í ár. Toyota er fjórði stærsti bílaframleiðandi heims og stjórnendur Toyota telja að innkallanirnar muni ekki hafa töluverð áhrif á sölu bifreiða á þessu ári, þó gera megi ráð fyrir 2-3% samdrætti frá upprunalegri söluáætlun.

Shinichi Sasaki, aðstoðarforstjóri Toyota sagði þó við fjölmiðla í Japan í morgun að stærsta áhyggjuefni stjórnenda félagsins væri að salan myndi óvænt minnka.