Auglýstar hafa verið í Lögbirtingarblaðinu þrjár innkallanir vegna krafna á hendur Tryggingasjóði innstæðueigenda. Þær eru vegna Sparisjóðsins í Keflavík, Byrs sparisjóðs og VBS fjárfestingarbanka hf. Er innköllunarfrestur sex mánuðir.

Þann 22. apríl 2010 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að taka yfir stjórn Sparisjóðsins í Keflavík og skipa sjóðnum bráðabirgðastjórn. Sama dag var Byr sparisjóður yfirtekinn og VBS fjárfestingarbanki hf. var svo yfirtekinn 3. mars.

Þann 17. maí 2010 birti Fjármálaeftirlitið það álit sitt að þann 22. apríl 2010 hafi Sparisjóðurinn í Keflavík ekki verið fær um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðna tiltekinna reikninga, verðbréfa eða reiðufé þeirra viðskiptavina sem þess kröfðust. Sama átti við um Byr sparisjóð.

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta hefur vegna áðurgreindra tilvika stofnast til greiðsluskyldu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta gagnvart viðskiptavinum SPKEF og Byrs sem ekki hafa fengið greiddar andvirði verðbréfa eða reiðufé, í samræmi við ákvæði laga nr. 98/1999. Er því með skorað á alla þá sem telja til skulda vegna andvirðis verðbréfa og reiðufé á hendur VBS fjárfestingarbanka hf., að lýsa kröfum sínum fyrir Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta innan sex mánaða frá birtingu auglýsingar, eða þann 5. janúar 2011.

Þann 9. apríl 2010 birti Fjármálaeftirlitið síðan það álit sitt að þann 3. mars 2010 hafi VBS fjárfestingarbanki hf. ekki verið fær um að inna af hendi greiðslu á andvirði verðbréfa eða reiðufé þeirra viðskiptavina sem þess kröfðust. Er innköllunarfrestur sá sami og hjá SPKEF og Byr sem er sex mánuðir eða til 5. janúar 2011.