Fjárfestingar Íslendinga í Finnlandi hafa vakið mikla athygli undanfarið og í nýjasta tölublaði finnska viðskiptatímaritsins Talouselämä er mikil úttekt á fjárfestingum Íslendinga með ítarlegu viðtali og umfjöllun um þá bræður Ágúst og Lýð Guðmundssyni. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Samkvæmt samantekt blaðsins hafa Íslendingar fjárfest í fjölda fyrirtækja eins og kemur fram í töflu í blaðinu. Þar kemur fram að velta óskráðrar starfsemi félaga sem lúta íslenskri stjórn er farin að nálgast einn milljarð evra, eða um 87 milljarða króna.

Auk þess eiga þeir risafjárfestingar í skráðum félögum eins og Sampo, Elisa og Finnair. Exista á 15,6% í Sampo og má meta markaðsvirði þess hlutar á tvo milljarða evra, eða um 175 milljarða króna. Novator á 10,3% í Elisa, sem má meta á 350 milljónir evra eða 30,5 milljarða króna og FL Group á 22,4% hlut í Finnair, sem metinn er á 250 milljónir evra, eða 22 milljarða króna. Markaðsvirði þessara þriggja fjárfestinga er því um 230 milljarðar króna.

Í grein Talouselämä er bent á að þrátt fyrir að fjárfestingar Íslendinga hljóti að vekja athygli, þá sé athyglin töluvert umfram það sem tilefni er til sé horft til þess að heildarmarkaðsvirði hlutabréfa í finnsku kauphöllinni nemur 250 milljörðum evra, og þar af sé helmingurinn í eigu erlendra fjárfesta. Þannig vigti hlutur Íslendinga upp á 2,6 milljarða evra ekki þungt. Blaðið bendir einnig á að Íslendingar hafi mátt þola að mörgu leyti ómaklega umfjöllun og bendir á frétt sjónvarpsþáttarins MOT fyrr í vetur. Þar var sterklega gefið í skyn að Íslendingar væru að mestu að höndla með rússneska peninga sem þyrfti að þvo.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.