*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 8. mars 2015 14:35

Innkaupaverð aðeins hluti af bensínverði

Forstjóri Olís segir að opinber gjöld hreyfist ekki í takt við olíuverð og skýri af hverju bensínverð lækki ekki meira en raun ber vitni.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, segir íslenska neytendur ekki hafa farið varhluta af þeirri lækkun sem orðið hefur á heimsmarkaðsverði á olíu, enda hafi bensínverðið lækkað úr um 250 krónum í rúmar 200 krónur frá síðasta sumri.

„Þetta sýnir hvaða áhrif þetta hefur haft á Ísland og við reynum sífellt að láta heimsmarkaðsverð endurspeglast í útsöluverðinu, en hafa ber í huga að innkaupaverðið er aðeins einn hlutinn af útsöluverðinu. Skattar og gjöld ráða hins vegar miklu þar um. Álagning okkar er í krónutölum en ekki í prósentum, þannig að þótt heimsmarkaðsverð á olíu lækki um 50% þá þurfum við ennþá að borga fyrir okkar rekstur með krónum og þessi krónutala lækkar ekki í takt við olíuverðið úti. Því hækkar hlutur álagningarinnar, hlutfallslega, þegar olíuverð lækkar, en krónutalan ekki.“

Hann segir að þá komi einnig inn í reikninginn opinber gjöld, sem hreyfist ekki í takt við olíuverð, nema þó virðisaukaskatturinn. „Þetta skýrir að stærstum hluta af hverju helmingslækkun á olíuverði skilar sér ekki hingað sem helmingslækkun á bensínverði. Svo má heldur ekki gleyma því að olíuverð er í Bandaríkjadölum, en krónan hefur veikst gagnvart dollaranum undanfarið og hefur það unnið gegn verðlækkunum hér.“

Ítarlegt viðtal við Jón Ólaf er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.