Nýr forstjóri Volkswagen, Matthias Mueller gerir ráð fyrir að ljúka viðgerðum á öllum bílum fyrir lok næsta árs, en eins og greint hefur verið frá fannst nýlega hugbúnaður í bílum Volkswagen sem sniðgekk útblástursreglur. Þetta kemur fram í viðtali við þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung.

Hann segist einnig gera ráð fyrir því að innkallanir á bílum muni hefjast í janúar á næsta ári en talið er að Volkswagen þurfi að innkalla um það bil 11 milljónir bíla vegna málsins.

Matthias segir að félagið horfi fram á breytingar sem munu ekki vera sársaukalausar en fyrirtækið hefur hætt við eða frestað öllum fjárfestingum sem eru ekki algerlega nauðsynlegar.