Sérfræðingar telja ólíklegt að eitthvað sé hæft í þeim fréttum að stærsta námuvinnslufyrirtæki heims, BHP Billiton, sé að undirbúa yfirtökutilboð í annað hvorn álrisann Alcoa eða Alcan. Í byrjun vikunnar sagði breska dagblaðið The Times frá því að forráðamenn BHP Billiton íhuguðu að leggja fram yfirtökutilboð í Alcoa sem mun hljóða upp á fjörtíu milljarða Bandaríkjadala. Einnig var fullyrt í frétt Reuters-fréttastofunnar að námuvinnslufyrirtækið hefði ráðið til sín fjárfestingabankann Merrill Lynch til þess að vera í ráðgefandi hlutverki varðandi hugsanlegt yfirtilboð í Alcan.

Þeir sérfræðingar sem Dow Jones-Newswires fréttastofan hefur borið málið undir telja ekki mikið hæft í þessum fréttum. Að sögn Gavin Wendt, sem er sérfræðingur hjá ástralska greiningarfyrirtækinu Fat Prophets, er afar ólíklegt að BHP Billiton geri tilboð í Alcoa. Hann bendir á að Alcoa sé of stórt fyrirtæki og að framleiðsluvörur þess séu með þeim hætti að það blasi ekki við af hverju forráðamenn BGP Billiton ættu að hafa áhuga. Angus Aitken stjórnandi hjá Southern Cross Equities, sem er stærsta verðbréfamiðlun Ástralíu, tekur dýpra í árinni og segir fréttirnar beinlínis vera "þvaður."

Samþjöppun meðal áframleiðslufyrirtækja sem og annarra hárvörufyrirtækja hefur mikið verið í deiglunni undanfarið. Alcoa lagði fram óvinveitt yfirtökutilboð í Alcoa á dögunum og stjórnendur Alcan hafa ekki útilokað að lagt verði gagntilboð í Alcoa. Fram kemur í frétt Dow Jones-Newswires að sérfræðingar telji meiri samlegðaráhrif felast í samruna Alcan og Alcoa og telja því líklegt að dragi til tíðinda verði Alcoa í einna bestri stöðu til þess að koma fram með hæsta tilboðið.