Guðrún Ragna Garðarsdóttir hefur verið framkvæmdastjóri Atlantsolíu í tæplega tólf ár. Hún hóf upphaflega störf hjá félaginu árið 2006, sem aðstoðarfjármálastjóri, eftir að hafa snúið heim úr meistaranámi erlendis.

„Ég lauk Cand.oecon. í viðskiptafræði af endurskoðunarsviði frá Háskóla Íslands árið 2003 og hóf í kjölfarið störf sem fjármálastjóri hjá heildverslun. Árið 2005 flutti ég svo til Barcelona og fór þar í meistaranám. Ég lauk náminu árið 2006 og eftir útskrift flutti ég aftur til Íslands og hóf störf hjá Atlantsolíu, fyrst sem aðstoðarfjármálastjóri. Ég hafði gegnt því starfi í um tvö ár þegar mér var svo boðið að taka við sem framkvæmdastjóri félagsins."

Á þessum árum hefur íslenski olíumarkaðurinn tekið miklum breytingum að sögn Guðrúnar. Í því samhengi nefnir hún sérstaklega innkomu alþjóðlegu heildverslunarinnar Costco árið 2017, en Costco hristi ekki einungis upp í íslenskri dagvöruverslun, því verslunin opnaði einnig bensínstöð sem bauð upp á lægra eldsneytisverð en áður hafði þekkst.

„Innkoma Costco á markaðinn hafði líklega mest áhrif á okkur, þar sem við vorum áður sá aðili sem bauð upp á eitt lægsta verðið og okkar helsta markaðsvæði er höfuðborgarsvæðið. Við tókum okkur smá tíma í að átta okkur á þessari stöðu, en við vissum að við þyrftum að ráðast í einhverjar breytingar og hugsa hlutina svolítið upp á nýtt. Þetta var þó alls ekki slæmt - stundum er bara gott að það sé aðeins ýtt við manni.

Við fórum af stað og veltum öllum steinum er viðkomu kostnaði, auk þess sem við fórum í mikla endurskipulagningu innanhúss. Endurskipulagningin fól meðal annars í sér að fækka stöðugildum umtalsvert og sameina deildir. Í dag eru stöðugildi hjá fyrirtækinu tíu að meðtöldum framkvæmdastjóra og tveimur millistjórnendum. Við þurftum einnig að horfa á tekjuhliðina og ákváðum við að taka slaginn við Costco og fara í hörku samkeppni við þá. Það má í raun segja að við höfum verið eina olíufélagið sem brást að einhverju viti við innkomu Costco á markaðinn til að byrja með, með því að lækka verðin. Við fórum í það að breyta Kaplakrika í svokallaða afsláttarlausa stöð og lækkuðum lítraverðið niður í verð sem var svipað því sem Costco bauð upp á."

Guðrún segir að viðbrögð neytenda við þessari aðgerð félagsins hafi farið fram úr væntingum og fljótlega hafi mikil örtröð verið farin að myndast í lágverðsstöðinni í Kaplakrika. „Þarna var stöðin nánast sprungin og ákváðum við því að taka næsta skref og gera stöðina okkar á Sprengisandi einnig að lágverðsstöð. Hún er staðsett á fjölförnu svæði í Reykjavík og viðtökurnar voru ekki síður jákvæðar en þær voru í Kaplakrika."

Lögðu niður dreifingu

Ofangreindar breytingar í rekstri Atlantsolíu voru þó ekki þær einu sem ráðist hefur verið í á undanförnum tveimur til þremur árum því félagið ákvað einnig að leggja niður dreifingarhluta sinn.

„Eftir að búið var að yfirfara allan kostnaðarstrúktúrinn okkar var tekin ákvörðun um að leggja niður dreifinguna hjá okkur. Við erum með okkar eigin birgðatanka og höfðum alltaf séð um alla keðjuna sjálf. Við vorum því að reka okkar eigin olíutrukka. Það var tekin ákvörðun um að leggja niður dreifinguna hjá okkur og kaupa alla þjónustu tengda dreifingu af Olíudreifingu. Það hafði ekki verið í boði áður, en eftir þessa stóru samruna er Olíudreifingu skylt að bjóða þessa þjónustu til annarra en eigenda sinna, sem eru N1 og Olís. Við vorum áður með frekar óhagkvæma dreifingareiningu, enda erum við þrátt fyrir allt frekar lítil. Það var því hlutfallslega dýrt að halda uppi svo mörgum póstum og það að úthýsa dreifingunni minnkaði kostnað ásamt því að opna á dreifingu á nýjum markaðsvæðum sem við höfðum ekki haft tök á að þjónusta áður."

Nánar er rætt við Guðrúnu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .