Félag fasteignasala hefur kært til umboðsmanns Alþingis ýmis álitaefni varðandi svokallað eftirlitsgjald sem ríkið leggur á stéttina, m.a. hvort eftirlitið standist jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og stjórnarskrár, hvort gjaldtöku beri ekki að fresta eða fella niður og hvort heimilt sé að láta gjaldið renna til annarra málafloka en til umrædds eftirlits.

Innheimt gjöld til þessa nema sexföldum þeim kostnaði sem fallið hefur til við eftirlitið.

Það sem af er árinu hafa um þrjátíu einstaklingar lagt inn réttindi sín til fasteigna-, fyrirtækja og skipasölu og fellur þar með löggilding viðkomandi til slíkrar starfsemi niður. Þar af hefur um helmingur, eða fimmtán manns, lagt inn réttindi sín í ágústmánuði, sem eru fleiri innlagnir réttinda en allt árið í fyrra.

„Þetta er mjög sérstakt og miðað við fyrri ár er þetta holskefla innlagna,“ segir Kristjana Guðlaugsdóttir hjá embætti sýslumanns í Hafnarfirði, sem tekur bæði við umsóknum um löggildingar til fasteignasölu og innlögðum réttindum.

„Miðað við þróunina höfum við þá trú að fleiri muni leggja inn leyfin sín á næstunni. Á móti höfum við gefið út örfáar löggildingar, en þær eru gríðarlega fáar miðað við það sem verið hefur.“

Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, segir að innan stéttarinnar ríki megn óánægja með eftirlitsgjaldið, sem nemur 100 þúsund krónum á ári, og telur hann óánægju fasteignasala vera meginskýringuna á mikilli fjölgun innlagna.

„Að okkar mati skýrir óánægja manna með eftirlitsgjaldið um 90% innlagna,“ segir Grétar.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .