Innlánareikningur Landsbankans í Bretlandi, Icesave, hefur nú laðað að sér yfir 80 þúsund viðskiptavini sem samtals eiga yfir 3 milljarða punda inneign. Reikningurinn var fyrst kynntur á markaðnum í október á síðasta ári. Icesave reikningurinn er einfaldur í notkun og býður samkeppnishæf kjör að því er kemur fram í frétt frá bankanum.

Ólíkt hefðbundnum innlánsreikningum í Bretlandi þurfa reikningseigendur ekki að greiða sérstaka þóknun fyrir að taka út utan tiltekinna tímabila.

Í frétt Landsbankans kemur fram að bankinn greip til aðgerða til þess að auka innlán þegar aðstæður fyrir íslensku bankana á alþjóðlegum fjármálamarkaði versnuðu í upphafi síðasta árs. Lykilþáttur í þeim viðbrögðum var að laða að innlán, einkum innlán einstaklinga, á alþjóðlegum markaði. Icesave er nú orðin ein af meginstoðum í fjármögnun bankans og gerir það að verkum að Landsbankinn er síður háður þeim sveiflum sem geta orðið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Í lok fyrsta ársfjórðungs námu innlán 62% af heildarútlánum en voru 34% í upphafi árs 2006. Þetta hefur átt þátt í að bæta stöðu Landsbankans á alþjóðlegum fjármálamarkaði, eins og endurspeglaðist í nýlegri hálfs milljarðs evra skuldabréfaútgáfu í Evrópu, og verulegri lækkun álags á skuldatryggingar bankans í kjölfarið.


Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri, segir um Icesave í tilkynningunni: ?Velgengni Icesave á þessum harða samkeppnismarkaði er ánægjuefni. Það er mikilvægt fyrir okkur að halda áfram að auka jafnvægið í fjármögnun bankans því það eykur jafnframt aðgengi okkar að fjármálamörkuðum og lækkar verðið á lánsfé fyrir bankann.
Eftir afar vel heppnaða skuldabréfaútgáfu Landsbankans á Evrópumarkaði fyrir rúmri viku hefur álag á skuldatryggingar Landsbankans haldið áfram að lækka. Álagið er í dag 18 punktar sem er það lægsta síðan markaður myndaðist með skuldatryggingar íslensku bankanna haustið 2005. Þetta er til marks um vaxandi tiltrú markaðarins á Landsbankann og stefnu hans.?