*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Innlent 15. nóvember 2019 11:14

Innlán á Auði 13,8 milljarðar

Innlánsreikningurinn Auður hjá Kviku banka hefur vaxið hratt á sínu fyrsta ári.

Ritstjórn
Marínó Örn Tryggvason tók við sem forstjóri Kviku banka í byrjun síðasta sumars.
Haraldur Guðjónsson

Kvika banki kom inn með látum í samkeppnina á innlánsmarkaði síðast vor með innlánsreikningnum Auði sem borgaði 4% vexti á innistæður sem bundnar væru til þriggja mánaða. Samkvæmt fjárfestakynningu Kviku banka með níu mánaða árshlutareikningi bankans kemur fram að innistæður á Auði námu í lok september sl. 13,8 milljörðum króna. 

Innlán samkvæmt 9 mánaða uppgjöri Kviku banka námu samtals 58,6 milljörðum króna samanborið við 47,9 milljarða króna undir lok síðast árs og hafa því aukist um 10,7 milljarða í ár. Vöxturinn er því að mestu tilkominn vegna Auðar sem hefur vaxið jafnt og þétt frá því að honum var hleypt af stokkunum um miðjan mars síðastliðinn. 

Mestur var vöxturinn í upphafi en samkvæmt 3 mánaða uppgjöri bankans í ár námu Innistæður á Auði 5,3 milljarðar króna í lok mars. Samkvæmt hálfsársuppgjörinu höfuð innistæðurnar vaxið um 6,6 milljarða króna og stóðu í 11,9 milljarðar í lok júní. Innistæðurnar jukust svo um tæpa 2 milljarða á þriðja ársfjórðungi í 13,8 milljarða. 

„Á árinu hefur verið ánægjulegt að sjá viðtökur við Auði og áhrifum hennar á samkeppni á innlánamarkaði. Þetta er gott dæmi um hvernig bankaþjónusta er að breytast. Mikil tækifæri felast í að taka þátt í þeim breytingum og möguleikum sem eru til staðar til að halda áfram að bæta kjör viðskiptavina,“ er haft eftir Marinó Erni Tryggvasyni í tilkynningu bankans um níu mánaða árshlutareikningnum í gær. 

Innlánsvextir á Auði hafa lækkað frá því að reikningurinn var kynntur til sögunnar í vor en þá voru þeir 4%. Í dag býðst viðskiptavinum 3,5% vextir á innistæður sínar með þriggja mánaða bindingu en 2,75% vexti á innistæður án bindingar. Þess má geta að Seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti sína um 1,5% á þessu tímabili.