Fjárhæðir á innlánsreikningum hafa dregist saman um 120 milljarða króna frá byrjun árs 2010. Innlán hafa minnkað alla mánuði ársins nema einn.

Þetta kemur fram í samantekt greiningardeildar Arion banka yfir skuldabréfamarkaðinn.

Á sama tíma hefur innflæði í skuldabréfasjóði verið mikið að þessu ári. Segir að lækkandi innlánsvextir og útlit fyrir frekari vaxtalækkanir hafi eflaust haft þar mest að segja.

Greiningardeildin bendir á að það sem af er ári er innflæði í skuldabréfasjóði nokkuð svipað útflæði innlána.

Hræðsla í september

„Svo virðist sem að í september hafi nettó innflæði verið í kringum núll sem er athyglisvert þar sem innflæði hafði verið stöðugt yfir 5 milljörðum króna mánuðina á undan. Spurning er hvort eigendur skuldabréfasjóða hafi fyllst hræðsla vegna mikilla lækkana á skuldabréfamarkaðnum og selt í sjóðum.“