Innlán fjármálafyrirtækja hafa dregist saman um 140 milljarða króna á þessu ári og nema nú um 1520 milljörðum króna. Þegar þróunin á árinu er skoðuð sést að fjárhæðir á innlánseikningum hafa lækkað nokkuð jafnt og þétt á milli mánaða.

Lúðvík Elíasson, forstöðumaður greiningardeildar MP banka, segir að mest hafi lækkunin orðið á innstæðum erlendra aðila á peningamarkaðsreikningum og gjaldeyrisreikningum. Innstæður erlendra aðila hafa dregist saman um 40% á árinu, rúmlega 30 milljarða króna, og innstæður á gjaldeyrisreikningum hafa lækkað um 42 milljarða króna eða 30%. Lúðvík segir að líklegast megi skýra lækkunina á þessum reikningum með reglum um gjaldeyrishöft.

Hann segir að lækkandi vaxtaumhverfi skýri 30% lækkun um 42 milljarða króna á peningamarkaðsreikningum. Fjármunir á slíkum reikningum liggi þar í skamman tíma og eru því mjög næmir fyrir vaxtastiginu. Vegna lækkandi vaxta hafi fjármunir í auknum mæli færst yfir á skuldabréfamarkað.

Aðlögun að eðlilegra ástandi

Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá greiningu Íslandsbanka, tekur í sama streng og segir lækkandi vexti hafa mikið að segja. Hann segir að ef litið er á tölur yfir stærð verðbréfasjóða sést að þeir hafi verið að stækka á árinu. H e i l d a r e i g n i r verðbréfaog fjárfestingarsjóða námu um 285 milljörðum króna í lok ágúst síðastliðinn og hafa eignir þeirra aukist um nærri 90 milljarða á árinu. „Á síðustu misserum hefur stórt hlutfall eigna bæði stofnanafjárfesta og einstaklinga legið á innlánsreikningum. Það er að breytast og að því leyti má tala um nokkra aðlögun að eðlilegra ástandi á fjármálamörkuðum,“ segir Jón Bjarki.