Verði af kaupum Kaupþings banka á Singer & Friedlander munu innlán Kaupþings banka nær tvöfaldast. Sama á við um eignir í stýringu, sem við lok árs 2004 hefðu numið samtals 950 milljörðum króna. Kauptilboð Kaupþings banka hljóðar uppá 1,49 sinnum eigið fé Singer & Friedlander og mun bankinn ekki gefa út nýja hluti í tengslum við kauptilboðið.

Stjórn Kaupþings banka telur að með yfirtökunni á Singer & Friedlander skapist aukin verðmæti fyrir hluthafa Kaupþings banka í tengslum við þróun almennrar bankastarfsemi, fjármögnunarleigu og eignastýringar í Bretlandi.
Gangi kaupin eftir verður jafnframt til öflugur banki með mikla sérhæfingu í alhliða fjármálaþjónustu við meðalstór og minni fyrirtæki og efnaða einstaklinga í Bretlandi.

Góður árangur Kaupþings banka í Bretlandi á sviði fyrirtækjaráðgjafar og skuldsettrar fjármögnunar (e. leveraged finance) mun styðja við öfluga stöðu Singer & Friedlander í bankaþjónustu, fjármögnunarleigu og eignastýringu. Kaupþing banki leggur áherslu á þróun bankaþjónustu og ráðgjafar fyrir fyrirtæki á alþjóðavísu. Í samræmi við þá stefnu hefur Kaupþing banki eflt alþjóðlega starfsemi sína umtalsvert á undanförnum árum með yfirtökum á fjármálafyrirtækjum. Stærsta yfirtakan til
þessa voru kaupin á FIH Erhvervsbank í september 2004. FIH er leiðandi banki í þjónustu við fyrirtæki í Danmörku og er sameiningu hans við Kaupþing banka nú að fullu lokið.

Stjórn Kaupþings banka lítur á Bretland sem lykilmarkaðssvæði í alþjóðlegri þróun bankans. Undanfarin ár hefur starfsemi Kaupþings banka í Bretlandi vaxið ört. Reksturinn þar hefur gengið sérlega vel en á árinu 2004 áttu 17% af tekjum bankans uppruna sinn að rekja til Bretlands. Kaup á Singer & Friedlander eru næsta skref í þeirri stefnu Kaupþings banka að
efla starfsemina í Bretlandi.