Eftir útrás bankanna verður erfiðara að lesa skýra stöðu þjóðarbúsins út úr þjóðhagsreikningum. Þannig getur velgengni nýrra innlánareikninga leitt til þess að skuldastaða þjóðarbúsins eykst.

Hrein staða þjóðarbúsins við útlönd var neikvæð um 1.845 milljarða króna í lok síðasta árs og hafði versnað um 492 milljarða króna á fjórðungnum samkvæmt nýjum tölum á heimasíðu Seðlabanka Íslands. Skuldir þjóðarbúsins hækkuðu um 800 milljarða króna en eignir um 306 milljónir króna.

Erlendar skammtímaskuldir hækkuðu um 523 milljarða króna á fjórðungnum. Staða langtímalána hækkaði um 219 milljarða króna. Fyrir þessum breytingum eru nokkrar skýringar. Þannig hefur orðið veruleg breyting á liðnum innstæður (e. deposits) sem meðal annars innifelur í sér innlán bankanna erlendis. Þannig má segja að velgengni innlánareikninganna Kaupþing Edge og Icesave geri það að verkum að skammtímaskuldir þjóðarbúsins hækka um 114 milljarða króna á milli ársfjórðunga eða fjórðung af heildarbreytingunni á fjórðungnum.

Þannig hefur þessi liður neikvæð áhrif á hreina stöðu þjóðarbúsins enda hluti af fjármögnun bankanna. Gera má þó ráð fyrir að bankarnir endurláni þessa fjármuni að einhverju leyti. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa þessir liðir haldið áfram að sækja í sig veðrið á árinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .