Tvö af helstu markmiðum stjórnenda Kaupþings eru að lækka rekstrarkostnað bankans og auka hlutfall innlána í fjármögnun hans.

Vel hefur miðað í að draga úr kostnaði en ekki verður fram hjá því horft að þróun í innlánum bankans veldur miklum vonbrigðum og ef aðeins er tekið mið af fyrsta ársfjórðungi virðast litlar líkur á að takast muni að ná því markmið að innlán sem hlutfall af útlánum fari yfir 50% í ár.

Þannig varð reyndin sú að hlutfall innlána af útlánum lækkaði úr 42% um áramótin í 36% í lok mars þrátt fyrir að farið hafi verið af stað með innlánreikninginn Kaupthing Edge í Noregi, Bretlandi, Belgíu og Þýskalandi á fyrsta fjórðungi en áður í Finnlandi og Svíþjóð.

Lítill sem enginn árangur hefur náðst í Skandinavíu, innlán í Bretlandi jukust að vísu um 100 milljarða en innlán á Íslandi drógust saman um 57 milljarða.

Líklegt má telja að hin mikla erlenda umræða um stöðu bankanna og stöðu efnhagsmála á Íslandi hafi haft veruleg neikvæð áhrif auk þess sem samkeppni á innlánmarkaðinum er nú miklum mun harðari en áður.