Forsvarsmenn íslenskra verslana segja eðlilegt að verð á Íslandi sé hærra en á mun stærri mörkuðum erlendis. Meðal orsaka sé smæð markaðarins, hár fastur kostnaður, háir vextir, flutningskostnaður og óstöðugur gjaldmiðill. Þetta kom fram á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga um samkeppnishæfni íslenskra verslana á Grand hóteli á dögunum.

Svartir sauðir

Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, var meðal þeirra sem tók þátt pallborðsumræðum. Hann sagði að því miður leyndust svartir sauðir innan íslenskrar verslunar sem virtust hafa það að markmiði að færa alla verslun Íslendinga yfir á veraldarvefinn. Íslenskir neytendur féllust á það að aðstæður skýrðu einhvern verðmun á milli landa en ákveðin vitundarvakning hefði átt sér stað undanfarið.

Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff og varaformaður rekstrarfélags Kringlunnar, sagði að íslenskir kaupmenn kæmust einfaldlega ekki upp með að svína neytendur mánuðum saman. Þá myndi einfaldlega opnast tækifæri fyrir nýja aðila til að koma á markaðinn og hirða markaðshlutdeildina. Jón Björnsson, forstjóri Festi hf., er þeirrar skoðunar að íslensk fyrirtæki þurfi að endurskoða viðskiptahætti sína. Til dæmis væru innleggsnótur í raun úrelt fyrirbæri, viðskiptavinir sem skiluðu vörum sínum ættu einfaldlega að geta fengið pening til baka í stað þess að þurfa að kaupa sér aðra vöru í sömu verslun. Að sama skapi væri meðferð verslana á gjafabréfum oft undarleg.

Viðskiptavinur ætti að fá að kaupa hvað sem er í versluninni fyrir gjafabréf, en sumir settu þau skilyrði að t.d. mætti ekki kaupa útsöluvörur. Aukinheldur væri undarlegt að gjafabréf skyldu fyrnast, þau ættu að vera ígildi peninga í tiltekinni verslun.