Reiknistofa bankanna (RB) og Sopra Banking Software hafa gert með sér samning um innleiðingu nýs innlána- og greiðslukerfis á Íslandi. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Landsbankinn og Íslandsbanki hafa þegar ákveðið að innleiða kerfið, en aðrir viðskiptavinir munu vera í greiningarferli. Fram kemur að nýja kerfið sé fjölbankakerfi þar sem hægt verði að millifæra milli banka í rauntíma. Hingað til hafa allir íslensku bankarnir notað sömu innlána- og greiðslukerfin sem eru þróuð og forrituð af RB.

Friðrik Þór Snorrason, forstjóri RB, segir við Morgunblaðið að verðmæti samningsins sé trúnaðarmál, en verkefnið sé afar umfangsmikið. Yfir 100 manns muni koma að því á Íslandi og erlendis.

„Kjarninn verður staðlaður og alþjóðlegur og mun taka breytingum í takt við breytingar sem verða á regluverkinu erlendis. Hér er líka verið að opna markaðinn á Íslandi. Það verður auðveldara fyrir bankana að kaupa aðrar staðlaðar lausnir og tengja við okkar lausnir. Það var mun flóknara áður fyrr. Það verður til hagkvæmni og samkeppni,“ segir Hreinn Jakobsson, stjórnarformaður RB, í samtali við Morgunblaðið.