Framkvæmdastjórn Íslandsbanka hefur samþykkt innleiðingu á samkeppnisstefnu bankans. Í tilkynningu frá bankanum segir að reglurnar gegni mikilvægu hlutverki á frjálsum markaði til að tryggja neytendum og þjóðfélaginu af virkri samkeppni.

„Ábyrgðaraðili samkeppnismála Íslandsbanka mun annast fræðslu um samkeppnismál fyrir starfsmenn bankans. Gildissviðsamkeppnislaganna og bannákvæði eru víðtæk og er því þekking starfsmanna bankans á lögunum mikilvæg. Þá stendur nú yfir innleiðing á innra samkeppniseftirliti og greining á hættu á samkeppnislagabrotum í starfsemi bankans.

Sem stór aðili á markaði ber Íslandsbanki ábyrgð á að gæta varfærni í aðgerðum sínum. Íslandsbanki telur mikilvægt að starfsemi bankans sé að öllu leyti í samræmi við samkeppnisreglur og að ákvarðanir, samningar og aðgerðir hans á markaði brjóti ekki gegn samkeppnislögum enda telur bankinn að með heiðarlegri samkeppni á markaði sé hagur viðskiptavina bankans best tryggður,“ segir í tilkynningu.