Nú á dögunum undirrituðu Landspítali og Optima ehf. samning til sex ára um innleiðingu og rekstur á nýju aðgangstýrðu prentumhverfi, sem nefnist Prentský. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Undanfarin 7 ár hefur Optima rekið samskonar lausn á Landspítala en í upphafi árs var verkefnið boðið út á ný og varð Optima hlutskarpast í því útboði.

Prentlausn sem þessi er umhverfisvæn og lækkar rekstrarkostnað umtalsvert. Áætlað er að Landspítali hafi sparað tugi milljóna á ári frá því að lausnin var fyrst innleidd.

Verkefnið er umfangsmikið, en í heildina verða innleidd um 350 ný og fullkomin prenttæki með hugbúnaði á öllum starfsstöðvum spítalans. Landspítali leigir allan búnað af Optima sem sér jafnframt um allan rekstur og þjónustu við tækin. Starfsmenn Landspítala nota aðgangskort til að leysa út prentverk og því liggja ekki viðkvæmar upplýsingar á tækjunum. Með hertari löggjöf um persónuvernd hentar þessi lausn mjög vel auk þess sem umhverfið nýtur góðs af henni en pappírsnotkun hefur dregist saman með betri nýtingu og minni sóun.