Mjög hefur dregið úr innleiðingarhalla Íslands á tilskipunum Evrópusambandsins. Samkvæmt nýbirtu frammistöðumati ESA nemur hann einu prósenti en fyrir fimm árum var hann 3,2 prósent.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gefur tvisvar á ári gefur út frammistöðumat þar sem tekinn er saman árangur EFTA-ríkjanna þriggja innan EES við innleiðingu EES-gerða. Samkvæmt nýbirtu frammistöðumati ESA bætir Ísland sig umtalsvert þegar kemur að innleiðingu á tilskipunum Evrópusambandsins. Í frammistöðumatinu kemur fram að að innleiðingarhalli Íslands á tilskipunum nemur einu prósenti. Miðað var við stöðu innleiðinga þann 31. maí 2018 og voru óinnleiddar tilskipanir Íslands þá átta talsins.

„Það er ánægjulegt að sjá hve mikið hefur dregið úr innleiðingahallanum á undanförnum misserum enda hef ég lagt á það sérstaka áherslu síðan ég varð utanríkisráðherra. Með fullnægjandi framkvæmd EES-samningsins almennt getur Ísland skapað sér betri stöðu til að hafa áhrif á mótun lagasetningar ESB snemma í ferlinu og jafnvel til að fá undanþágu eða sértæka aðlögun á gerð þar sem miklir hagsmunir eru í húfi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Frammistaða Íslands hvað varðar innleiðingu á tilskipunum hefur batnað mikið á síðustu misserum og hefur Ísland ekki staðið betur að vígi í átta ár eða frá árinu 2010. Í frammistöðumatinu er Íslandi hrósað sérstaklega fyrir bættan árangur og eru íslensk stjórnvöld hvött til að halda áfram á sömu braut. Í síðasta mati, sem gert var opinbert fyrir um hálfu ári síðan, var innleiðingarhalli Íslands 1,8 prósent og þar áður 2,2 prósent. Til samanburðar náði innleiðingarhalli Íslands hámarki á fyrri hluta ársins 2013 þegar hann nam 3,2 prósent.

Óinnleiddar tilskipanir í Liechtenstein námu sem svaraði til 0,7 prósenta innleiðingarhalla, en Noregur stóð sig best með 0,1 prósentinnleiðingarhalla samkvæmt frammistöðumatinu.

Ísland bætti einnig frammistöðu sína varðandi innleiðingu á reglugerðum. Innleiðingarhalli á sviði reglugerða nam 0,8 prósentum miðað við stöðuna 31. maí 2018 en var áður 1,2 prósent.