Hlutdeild innfluttra landbúnaðarvara hefur aukist á síðustu árum samhliða aukinni eftirspurn, sem innlendri framleiðslu hefur ekki tekist að anna.

Vörur eru nú í meira mæli fluttar inn þrátt fyrir háa tolla, en tollvernd á Íslandi er sú mesta innan OECD og í samanburði við Evrópusambandsríkin, þrátt fyrir að hafa dregist saman. Þetta er meðal niðurstaða í skýrslu starfshóps sem falið var að greina þróun tollverndar og stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi.

Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að erlend samkeppni hefði aukist talsvert með auknum innflutningi landbúnaðarvara síðasta áratuginn, en sem fyrr segir hafi innlend framleiðsla í flestum tilvikum ekki hafa haldið í við aukna eftirspurn, og því þurft að flytja inn það sem upp á hafi vantað.

Nokkuð hefur dregið úr tollvernd ýmissa vörutegunda landbúnaðarvara, meðal annars vegna samninga við Evrópusambandið um viðskipti með landbúnaðarvörur, sem tóku gildi árið 2018.

Í starfshópnum sátu Daði Már Kristófersson hagfræðingur og nýkjörinn varaformaður Viðreisnar, sem var formaður formaður hópsins, Sigurður Eyþórsson, Tryggvi Másson, Arnar Freyr Einarsson og Bryndís Eiríksdóttir.