OMXI6ISK vísitalan lækkaði um 1,94% í síðustu viku. Þetta kemur fram í markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Ekkert félag í vísitölunni hækkaði. Mest lækkuðu bréf BankNordik, um 6,67% í aðeins einum viðskiptum.

Veltan á OMXI6ISK í síðustu viku nam um 351 milljónum króna segir í markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Mest viðskipti voru með bréf í Marel og Icelandair eða ríflega 98% af veltu vikunnar. Icelandair tilkynnti í vikunni um aukin umsvif á næsta ári, félagið ætlar að auka flug um 13% milli ára. Verða þetta allt að 400 flug á viku og þegar mest lætur mun félagið flytja 10 þúsund farþega á sólarhring. Áhersla verður lögð á aukið framboð flugs utan sumartíma. Fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir um 2 milljónum farþega en samkvæmt áætlun fyrir 2011 munu farþegar verða 1,8 milljónir.

Ekkert bólar enn á nýrri skráningu í Kauphöll Íslands á þessu ári en gert er ráð fyrir að Hagar verði skráð fyrir áramót. Þá eru 10 félög búin að leggja fram skráningaráætlanir og þar af 6 opinberlega samkvæmt forstjóra Kauphallarinnar. Vonandi mun fjárfestingakostum fjölga á næsta ári í Kauphöllinni en í dag eru einungis virk viðskipti með bréf tveggja félaga segir í markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa.