Kortavelta landsmanna dróst saman um tæpleg fimm prósent að raungildi í nóvember samanborið við sama mánuð fyrra árs. Innlend kortavelta Íslendinga jókst hins vegar um 6% að raungildi og nam 71,5 milljörðum króna. Erlend kortavelta landsmanna dróst saman um tæplega helming og nam tíu milljörðum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í greiningu Íslandsbanka.

Hlutfall erlendrar veltu af heildar kortaveltu landsmanna nam ríflega 12% í nóvembermánuði en 18% að jafnaði á síðasta ári. Frá því er greint að hlutfallið hefði að öllum líkindum lækkað enn frekar ef ekki kæmi til aukin verslun Íslendinga við erlendra netverslanir.

Aldrei hefur verið meiri halli á kortaveltujöfnuði – erlend kortavelta hérlendis að frádreginni veltu Íslendinga erlendis. Hallinn nam 8,4 milljörðum króna í nóvember þar sem velta erlendra greiðslukorta á Íslandi nam ríflega 1,6 milljörðum króna.

Til samanburðar nam erlend kortavelta hérlendis ríflega þrettán milljörðum í nóvember á síðasta ári og kortavelta Íslendinga erlendis nam sextán milljörðum í sama mánuði.

Sagt er frá því að fylgni kortaveltu við nýgengi COVID-19 smita er sterk og „gefur tóninn um hversu mikið einkaneysla sveiflast í takti við framgang faraldursins og aðgerða gegn honum.“ Á fyrstu níu mánuðum ársins dróst einkaneysla saman um 3,5% að raungildi á milli ára.