Heildarvelta innlendra greiðslukorta nam 88 milljörðum króna í nýliðnum ágúst sem er tæplega 11% samdráttur milli mánaða er hún nam ríflega 98 milljörðum í júlí.

Velta debetkorta nam 45,5 milljörðum króna, sem er 0,4% lækkun milli ára, og velta kreditkorta nam 42,5 milljörðum, sem er 8,4% lækkun frá sama tíma árið áður.

Heildarvelta erlendra greiðslukorta á Íslandi í ágúst 2020 nam 9,3 milljörðum króna sem er um 70,2% lægri velta miðað við sama tímabil í fyrra og um þrjú prósent samdráttur milli mánaða. Þetta er meðal þess sem lesa má úr nýbirtum gögnum frá Seðlabankanum.

Árið 2019 nam innlenda greiðslukortavelta ríflega 1.074 milljörðum króna sem var lítillega aukning milli ára. Innlendri greiðslukortaveltu er skipt niður í fyrirtækjakort og greiðslukort heimila þar sem velta heimila er um 90% af heildarveltu.