Eftir að hafa gengið í gegnum erfiða tíma er COVID-19 faraldurinn stóð sem hæst virðist innlend verslun vera að ná vopnum sínum á nýjan leik. Að sögn rekstraraðila sem reka nokkurn fjölda verslana í tveimur af stærstu verslunarmiðstöðvum landsins, Kringlunni og Smáralind, voru landsmenn duglegir að heimsækja verslunarmiðstöðvarnar í sumar og ekkert lát virðist á aðsókninni nú þegar hausta tekur.

„Um miðjan maí fór verslun aftur að ranka við sér og það virðist hafa verið búin að hlaðast upp uppsöfnuð þörf hjá fólki til að fara í verslunarferðir í verslunarmiðstöðvarnar," segir Hermann Helgason, framkvæmdastjóri S4S, en félagið á og rekur 14 verslanir sem flestar eru í verslunarmiðstöðvum. Hann segir þó mestu söluaukningu félagsins hafa átt sér stað í gegnum netverslun og Ellingsen verslanirnar.

„Vegna COVID-19 eru flestir Íslendingar heima og margir hafa verið að kaupa sér tæki og tól fyrir peninginn sem annars færi í utanlandsferð. Rafhjólin og rafhlaupahjólin hafa selst mjög vel, auk þess sem tjöld, kælibox og annar búnaður sem tengist innanlandsferðalögum hefur notið mikilla vinsælda. Salan í sumar í gegnum netverslun þrefaldaðist á milli ára og netverslunin hjálpaði okkur að milda tekjusamdráttinn sem varð á þeim tímum sem samkomutakmarkanir voru sem mestar. Starfsfólk S4S hefur staðið sig ótrúlega vel í gegnum þetta tímabil og unnið með fyrirtækinu í öllum þeim áskorunum sem hafa komið upp og breyttu verslunarumhverfi," segir hann og bætir við að félagið sé meðvitað um að þetta sé tímabundið ástand og hlutirnir geti verið fljótir að breytast ef slakað verður á aðgerðum á landamærum.

Vinna upp tapið frá því í mars og apríl

Svava Johansen, eigandi fataverslunarkeðjunnar NTC, sem rekur einnig fjölda verslana í verslunarmiðstöðvunum tveimur, bendir á að í venjulegu árferði fari margir Íslendingar erlendis á haustin í september og október í verslunarferðir. Vegna veirunnar sé staðan þó önnur í dag og því færist verslun landsmanna í auknum mæli til innlendra fyrirtækja.

„Sumarið var mjög gott og núna í september sjáum við strax mikla söluaukningu frá sama tíma í fyrra. Við gerum okkur þó grein fyrir því að þetta er tímabundið ástand. Þrátt fyrir að salan sé búin að aukast í sumar og haust erum við enn að vinna upp tapið sem varð í mars og apríl. Sala verslana NTC dróst saman um 50-60% á þessum tveimur mánuðum meðan COVID-19 faraldurinn var í hámarki. Þetta tímabil í kringum páskana hefur þar til nú í ár verið stórt hjá okkur þar sem mörg fermingarbörn hafa komið til okkar til að kaupa sér fermingarföt. Þegar horft er á þá átta mánuði sem liðnir eru af þessu ári hefur salan á tímabilinu dregist saman frá sama tímabili í fyrra en ef salan í september heldur áfram af sama krafti út restina af árinu, reiknum við breytingar eftir sig og fólk haldi áfram að huga að þessu eftir að búið er að vinna bug á veirunni."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .