Nýútkomin bók eftir Ásgeir Jónsson dósent og deildarforseti hagfræðideildar og Hersi Sigurgeirsson dósent í fjármálum við viðskiptafræðideild, í báðum tilfellum við Háskóla Ísland, fjallar um eftirmála hrunsins.

Bókin, sem ber titilinn The Icelandic financial Crisis, er gefin út í sérstakri ritröð um banka og fjármálastofnanir frá Palgrave Macmillan. Meðal þess sem þar kemur fram er að rannsóknarskýrsla Alþingis hafi gefið ónákvæma lýsingu á atburðarráðs bankahrunsins.

Jafnframt hafi verið einblínt um of á hlut tiltekinna einstaklinga í stað þess kerfislegu veikleika sem enn sé til staðar í kerfinu, er haft eftir Ásgeiri Jónssyni í Morgunblaðinu í dag um bókina.

Myndi falla innan tveggja klukkustunda

Eitt af því sem bókin fjallar um er að staða erlendra banka hafi verið mun verri í hruninu heldur en áður var talið.

„Bretar óttuðust mjög að bankaáhlaupið sem þá var hafið á íslenska banka myndi smitast yfir í breskt fjármálakerfi sem stóð gríðarlega tæpt," segir Ásgeir, sem gefi aðgerðum þeirra í Icesave nýtt samhengi.

„Sama morgun og Alistair Darling hringdi í Árna Mathiesen til að spyrja hvort íslenska ríkið myndi taka ábyrgð á IceSave, hafði verið hringt í hann frá RBS og honum sagt að bankinn myndi falla innan tveggja klukkustunda ef honum yrði ekki bjargað hið snarasta.

Bresk stjórnvöld voru greinilega orðin mjög örvæntingarfull."

Hlutfallslega jafnstór banki í bresku samhengi

Ein ástæðan fyrir skrifum bókarinnar nú er að sögn Ásgeirs að nú hafi rykið sest svo hægt sé að vinna fræðilega úttekt á því sem gerðist, sem og tengja umfjöllunina betur við það sem var að gerast erlendis á sama tíma.

„Er gott að hafa t.d. hugfast að rétt eins og íslensku bankarnir var Danske Bank að hruni kominn og þurfti aðstoð bæði danskra stjórnvalda og bandaríska seðlabankans," segir Ásgeir.

„Er RBS annað gott dæmi, en sá banki var hlutfallslega jafn stór fyrir breska hagkerfið og Glitnir var fyrir það íslenska. Bresk stjórnvöld ákváðu að bjarga bankanum - og hafa stórtapað á því."

Erlend ráðgjöf að takmörkuðum notum

Ásgeir segir þó að hér á landi hafi verið gripið til aðgerða sem voru mjög ólíkar því sem gerðist ytra.

„Sú erlenda ráðgjöf sem landsmenn fengu á þessum tíma kom yfirleitt að takmörkuðum notum - Íslendingar voru neyddir til þess að þreifa sig sjálfir áfram og á endanum voru það oft sérsniðnar innlendar lausnir sem reyndust best."