*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 7. maí 2013 15:21

Innlendar vörur hækka meira en innfluttar

Ólafur Darri Andrason hjá ASÍ segir gengisstyrkingu krónunnar hafa skilað sér í lægra verði á innfluttum vörum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Á sama tíma og gengi krónunnar hefur hækkað um 10% frá í janúar hefur verð innlendrar mat- og drykkjarvöru hækkað um 2% en innfluttra vara um 0,7%, að sögn Ólafs Darra Andrasonar, hagfræðings ASÍ. Ólafur svarar því til spurður um verðþróunina á netmiðlinum Spyr.is, að Íslendingar flytji mikið inn af neysluvörum og aðföngum sem notuð eru í innlenda framleiðslu. Gengið krónunnar hafi því mikið að segja um þróun verðlags.

„En það eru fleiri þættir en gengið sem hafa áhrif á verðlag; erlend verðþróun, kostnaðarþróun innanlands, fákeppni innanlands, innflutningsvernd (sem er ætlað að stuðla að fákeppni) og verðbólguvæntingar innanlands. Allt eru þetta þættir sem hafa áhrif á þróun verðlags,“ segir Ólafur Darri.