Þó enn hafi ekki verið tekin formleg ákvörðun um sölu hafa eigendur Atlantsolíu fengið endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækið Deloitte til að undirbúa fyrirtækið fyrir söluferli. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur tilkoma Costco á eldsneytismarkaðinn dregið úr sölu hjá fyrirtækinu sem brugðist hefur við með lækkunum á sérvöldum sölustöðvum.

Guðrún Ragna Garðarsdóttir framkvæmdastjóri Atlantsolíu segir að innlendir aðilar hafi verið að sýna félaginu áhuga að undanförnu og að ákvörðun verði tekin á næstu vikum að því er Fréttablaðið greinir frá.

Atlantsolía er minnsta olíufélagið á markaðnum hér á landi, en eigendur þess eru Guðmundur Kjærnested og Brandon Charles Rose frá Bandaríkjunum. Félagið, sem var stofnað árið 2002, rekur nú 19 sjálfsafgreiðslustöðvar á landinu öllu.

Hagnaðurinn fjórfaldaðist

Á síðasta ári nam hagnaður félagsins 203 milljónum króna en árið áður nam hagnaðurinn 50 milljónum. Á sama tíma dróst þó heildarveltan saman um 680 milljónir en hún var samtals 4.638 milljónir á síðasta ári.

Á þessu ári gera stjórnendur fyrirtækisins ráð fyrir að EBITDA félagsins verði um 500 milljónir, en í lok síðasta árs námu heildareignir félagsins 3.700 milljónum króna, og var eigið fé þess um 840 milljónir. Því var eiginfjárhlutfallið rúmlega 22%.