*

sunnudagur, 18. apríl 2021
Innlent 2. apríl 2018 15:36

Innlendu aprílgöbbin 2018

Ýmsir fjölmðlar, stofnanir og fyrirtæki fengu fólk til að hlaupa apríl, með því t.d. að skrá sig í kosningu og trúa á komu mörgæsa.

Ritstjórn
Meðal þess sem var lofað til að fólk hlypi apríl í gær voru páskaegg, eigináritanir Maradona, miðar í fyrirmennastúkur á landsleikjum, mörgæsir á íslenskum ströndum og skyr með hákarlabragði.
Haraldur Guðjónsson

Eins og hefð er fyrir birtust fjölmörg aprílgöbb í íslenskum fjölmiðlum í tilefni 1. apríl sem var í gær. Í þetta sinn kom bar daginn sem hefðin býður upp á að láta fólk hlaupa apríl eins og það er kallað á páskadag og voru ýmsir sem létu blekkjast. Viðskiptablaðið tók sjálft þó ekki þátt í abrílgabbinu í ár frekar en hingað til, en hér að neðan má sjá stutt yfirlit yfir það sem aðrir léku sér með í tilefni dagsins.

  • Mbl.is, kosningar undir 18 ára og Maradona á Íslandi

Vefmiðillinn mbl.is sagði að 16 og 17 ára gamlir borgarbúar myndu geta kosið í sérstakri ráðgjafandi kosningu samhliða komandi borgarstjórnarkosningum í vor. Fóru 710 inn á þartilgerða síðu til að skrá sig í þátttöku, en hún leit út eins og vefur borgarinnar. Hlupu 259 manns apríl með því að skrá inn kennitölu og netfang þar.

Íþróttavefur mbl sagði að knattspyrnugoðsögnin Diego Maradona myndi sitja fyrir svörum á Laugardalsvelli ásamt Guðna Bergssyni formanni KSÍ, og þeir sem myndu mæta myndu fá áritaðar landsliðstreyjur.

  • Fréttablaðið og Vísir með sitt hvort aprílgabbið

Vísir sagði að tólfan, stuðningsmannaklúbbur íslenska landsliðsins hefði fengið þá miða á leiki liðsins á HM sem ráðamenn hygðust ekki nýta vegna mótmæla og fólk gæti sótt um að nýta þá með því að mæta í Ölver á hádegi.

Fréttablaðið sem nú er í sér fyrirtæki, sagði svo frá því á vef sínum að gestir á hátíðarmessu Hallgrímskirkju og Dómkirkjunnar myndu fá páskaegg í gjöf frá Nóa Síríus við messulok.

Fréttatíminn sagði svo frá því að með því að flytja inn bensín beint frá Bandaríkjunum hefði Costco tekist að lækka bensínverðið um 90 krónur.

  • Hákarlaskyr, velkomnir innflytjendur og lestarferð á Þingvöllum

Siggi´s skyr, sem framleiðir skyr fyrir Bandaríkjamarkað sagði svo að nýjasta vara fyrirtækisins væri með bragði og bitum af hákarli. Advania bjó til kynningarmyndband um nýtt starfrænt þungunarpróf sem gerði notendum kleyft að afrita niðurstöðuna beint í gegnum usb tengi inn á tölvu til að hægt væri að pósta niðurstöðunni á samfélagsmiðlum.

Síðan setti ferðaþjónustufyrirtækið Guide to Iceland myndskeið á Facebook sem sagði að mörgæsir hefðu komið sér fyrir á Íslandi vegna fæðuskorts á Suðurskautslandinu. Var hvort tveggja vitnað í líffræðinga sem höfðu áhyggjur af viðkomu lundastofnsins vegna samkeppninnar sem og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ferðamálaráðherra sem sagði alla innflytjendur velkomna til Íslands.

Strætóbílstjóri nokkur rak síðan alla farþega út en bauð svo öllum inn aftur með þeim orðum að þann daginn væri 1. apríl.

Loks sagði Lögreglan á Suðurnesjum á facebook síðu embættisins að lögreglukórinn hyggðist árita nýjan disk sinn: „Ekki aka of hratt“ fyrir framan lögreglustöðina á Hringbraut og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum boðaði ókeypis ferð með lest niður Almannagjá sem væri verið að prufukeyra.