*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 12. janúar 2017 16:10

Innlendum starfsmönnum fækkar á vinnumarkaði

Á árinu 2016 var fjöldi þeirra sem fá úrskurð um 75% örorkumat í fyrsta sinn meiri en fjölgun starfsfólks á vinnumarkaði, sem felur jafnframt í sér að innlendum starfsmönnum fækkaði.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Á árinu 2016 var fjöldi þeirra sem fá úrskurð um 75% örorkumat í fyrsta sinn meiri en fjölgun starfsfólks á vinnumarkaði, sem felur jafnframt í sér að innlendum starfsmönnum fækkaði á vinnumarkaði. Þetta gera Samtök atvinnulífsins að umfjöllunarefni í frétt á vefsíðu sinni.

„Með náttúrulegri fjölgun starfsfólks er átt við fjölgun íbúa á aldursbilinu 16-74 ára miðað við 80% atvinnuþátttöku. Ekki er reiknað með aðflutningi erlendra starfsmanna í náttúrulegri fjölgun,“ segir meðal annars þar.

Sé gert ráð fyrir því að fjöldi þeirra sem fá úrskurð um 75% örorkumat verði svipað og að meðaltali árin 2010 til ársins 2015, mun framboð af innlendum starfsmönnum fara minnkandi á komandi árum. „Það eykur þörf fyrir innflutning erlendra starfsmanna, bæði vegna örorkutíðni og þarfar til að manna þau störf sem verða til vegna hagvaxtar. Miðað við hóflegan hagvöxt má ætla að árleg þörf fyrir erlent starfsfólk verði á billinu 2.500 til 4.000, ef álíka margir Íslendingar flytja til og frá landinu,“ segir í fréttinni.