Starfsmenn Marel innleystu 626 milljóna króna hagnað við innlausn kauprétta á bréfum félagsins í gær og sölu bréfanna í dag.

Í gær var greint frá því að Marel hefðu selt 2.025.000 hluti í félaginu vegna innlausnar kaupréttarsamninga sem veittar hefði verið starfsmönnum félagsins. Starfsmennirnir keyptu bréfin á genginu 260,72 krónum á hlut fyrir 528 milljónir króna. Í morgun seldu þeir bréfin svo á genginu 570 krónur á hlut, fyrir 1.154 milljónir króna. Hagnaður þeirra á nýtingu kaupréttanna og sölu þeirra nemur því 626 milljónum króna.

Undanfarin ár hefur Marel gefið út kauprétti til starfsmanna sem byggja á gengi bréfa Marel á þeim tíma. Gengi bréfa Marel hefur hækkað umtalsvert frá því kaupréttirnir sem nú voru nýttir voru upphaflega veittir, sem starfsmennirnir njóta góðs af. Mest var hækkunin á síðasta ári en þá hækkuðu bréf félagsins um 66%. Síðast gaf Marel út kauprétti í lok apríl sem hægt verður að innleysa að þremur árum liðnum.

Samkvæmt upplýsingum frá Marel voru starfsmennirnir sem nýttu kaupréttina ekki meðal núverandi innherja eða lykilstjórnenda hjá félaginu. Ekki er gefið upp hve margir starfsmenn nýttu kaupréttina.