Atorka hefur gengið frá sölu á öllum eignarhlut sínum í Jarðborunum, ásamt 16% hlut í Enex til Geysir Green Energy í gegnum félag sitt Renewable Energy Resources. Samhliða sölunni kaupir Atorka 32% hlut í Geysi og verður með því kjölfestufjárfestir í félaginu. Heildarvirði (Enterprice Value) sölunnar eru 17,7 milljarðar króna og innleystur hagnaður Atorku frá upphafi fjárfestingarinnar er yfir 11 milljarðar króna fyrir reiknaða skatta.

Áhrif á móðurfélagsreikning á öðrum ársfjórðungi er á fjórða milljarð króna. Áhrif á samstæðureikninga á þriðja ársfjórðungi er um 5 milljarðar króna. Kaupverð Atorku í Geysi Green Energy eru rúmir 7 milljarðar króna.

Undir forystu Atorku hafa Jarðboranir vaxið og eflst verulega og er þessi sala til vitnis um árangursríka framkvæmd á fjárfestingarstefnu félagsins. Velta Jarðborana hefur fimmfaldast á fimm árum eingöngu með innri vexti.

Verkefnastaða Jarðborana hefur aldrei verið betri, áætluð velta Jarðborana á árinu 2007 er um 6,5 milljarðar króna og 8 milljarðar króna á árinu 2008. Heildarvirði (e. Enterprice Value) er um ellefu sinnum af áætlaðri EBITDU ársins 2007 og rúmlega 9 sinnum af áætlaðri EBITDU 2008. Atorka mun áfram fjárfesta í verkefnum í nýtingu jarðvarma með þátttöku sinni sem kjölfestufjárfestir í Geysi. Jarðboranir hafa verið að hasla sér völl erlendis og hafa nýlega keypt og tryggt sér kauprétt að þremur öflugum hátækniborum sem ætlað er að nýta í útrás félagsins. Nýju borarnir eru sérstaklega hannaðir til að afla jarðhita á miklu dýpi og styrkja enn frekar samkeppnisstöðu félagsins. Thor Novig, fyrrverandi framkvæmdastjóri þýska borfyrirtækisins Itag Tiefbohr GmbH, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri hjá nýju dótturfélagi Jarðborana í Þýskalandi, Hekla Energy GmbH. Fyrirhugað er að fyrstu borframkvæmdir á vegum Hekla Energy hefjist í Suður-Þýskalandi síðar á þessu ári.


Magnús Jónsson forstjóri Atorku segir um söluna í tilkynningu: "Með þessari sölu er Atorka að innleysa verulegan hagnað og skapa svigrúm til nýrra fjárfestinga. Fjárhagsstaða félagsins er sterk og aukum við fjárfestingargetu okkar með þessari sölu. Ljóst er að uppbygging Jarðboranna undir forystu Atorku hefur gengið afar vel og munum við áfram verða kjölfestuhluthafar í félaginu í gegnum Geysi. Við teljum Geysi vera spennandi fjárfestingarkost og mikil tækifæri í að skapa veruleg verðmæti með þátttöku í uppbyggingu á því félagi.?

Atorka Group er fjárfestingarfélag sem er skráð í OMX Nordic Exchange á Íslandi. Atorka fjárfestir í traustum fyrirtækjum sem eru í atvinnugreinum sem hafa sérstök tækifæri til vaxtar á heimsmarkaði. Í fjárfestingum sínum leggur Atorka áherslu á að rekstur fyrirtækjanna sé öflugur með sterkt sjóðstreymi, sterkt stjórnendateymi, starfi við góð skilyrði til verulegs innri og ytri vaxtar og hafi tækifæri til verðmætaaukningar.