Euler Hermes, stærsta greiðslutryggingafélag í heimi, hefur nú tilkynnt Innnes ehf að það muni opna fyrir tryggingar á innkaupum á þeirra vegum, fyrst fyrirtækja á Íslandi. Innnes, sem er innflytjandi á matvörum og sælgæti, hefur með þessu náð að endurheimta sömu greiðslufresti og það hafði fyrir hrun, en félagið skiptir við um eitt hundrað erlenda birgja um allan heim.

Allt frá hruni hafa erlend greiðslutryggingarfyrirtæki sem tryggja greiðslur til birgja sem selja vörur til Íslands, veitt litlar sem engar tryggingar á viðskiptin vegna vantrúar á greiðslugetu íslenskra fyrirtækja. Þetta þýðir að mörg íslensk fyrirtæki hafa þurft að staðgreiða vörukaup eða útvega bankaábyrgðir til birgja til þess að fá vörur afhentar.

Fyrir skömmu opnaði annað greiðslutryggingarfyrirtæki Astradius á Innnes en Astradius hefur í einhverjum mæli greiðslutryggt vörukaup frá íslenskum fyrirtækjum síðustu misseri. Eins hafði Coface, þriðja stærsta greiðslutryggingafélag í heimi, opnað fyrir viðskiptatryggingar en þeir annmarkar hafa fylgt þessum tveimur aðilum að erlendir birgjar eru margir hverjir aðeins með tryggingasamninga við Euler Hermes, þ.e. það fyrirtæki sem er stærst á sínu sviði í heiminum.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Innnes er það von forsvarsmanna Innnes að þetta séu jákvæð teikn frá Euler Hermes og að opnunin fyrir Innnes sé aðeins upphafið á því að fleiri erlendir birgjar fái greiðslutryggingarsamninga vegna vöru- og hráefnakaupa íslenskra fyrirtækja. Innnes ehf, sem á 25 ára afmæli á næsta ári, hefur ávallt haft það að leiðarljósi að standa í skilum við sína birgja á gjalddaga. Þá hefur félagið lagt áherslu á það frá hruni að upplýsa Euler Hermes reglulega um stöðu fyrirtækisins, sem og stöðuna á Íslandi. Góð fjárhagsleg staða og mikið upplýsingarstreymi eru hvoru tveggja liður í því að þessi árangur hefur nú náðst.