Heildverslunin Innnes, sem  er ein stærsta heildverslun landsins, hefur samþykkt að kaupa norræna fyrirtækið Haugen Gruppen, ásamt fleiri fjárfestum. Ólafur Björnsson, forstjóri félagsins, staðfesti kaupin í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en Haugen-samstæðan er töluvert stærri en Innnes og er með margfalt meiri veltu en íslenska fyrirtækið. Landsbanki Íslands fjármagnar verkefnið að hluta til en fjárfestahópurinn greiðir einnig fyrir samstæðuna með eigin fé.

Innnes hefur sérhæft sig í innflutningi og sölu á matvælum og hefur umboð fyrir mörgum þekktum vörumerkjum, þar á meðal Hunt?s tómatssósu, Gevalia-kaffi og Filippo Berio-ólífuolíur.

Haugen Gruppen er með höfuðstöðvar í Osló. Fyrirtækið varð til við samruna Tørsleff & Co, Carl Lange og House of Wine árið 2001, en samanstendur nú af Haugen Gruppen í Noregi, Danmörku og Svíþjóð.

Ekki er vitað hvers virði félagið er eða hvort að Innnes eigi í viðræðum um að kaupa samstæðuna eða ákveðnar einingar innan hennar. Danska eining félagsins hefur átt við sölusamdrátt að stríða. Haugen-samstæðan sérhæfir sig, líkt og Innnes, í innflutningi á matvælum og tengdum merkjavörum.