Gengið hefur verið frá sölu á Innova, móðurfélagi byggingafélaganna Ris og JB byggingafélags, til starfsmanna á vegum félaganna. Félögin eru með stærri byggingafélögum á landinu.

Það mun vera fyrirtækjasvið VBS fjárfestingabanka sem hafði milligöngu um viðskiptin.

Þorgeir Jósepsson, forstjóri Ris staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið en hann er einn af kaupendum ásamt þeim Magnúsi Jónssyni, framkvæmdastjóra Ris, Jóhanni Hlöðverssyni, þróunarstjóra RIS og Lúðvík Erni Steinarssyni hæstaréttalögmanni.

Þorgeir segir helstu verkefnin framundan sé að samþætta félögin án þess þó að sameina þau en frekari breytingar verði kynntar síðar í haust. Hann segir þó að skrifstofur félaganna verði sameinaðar í Garðabæ en lögheimil JB verði þó áfram í Kópavogi.

„Þetta hefur verið í vinnslu í viku, tíu daga,“ segir Þorgeir aðspurður um aðdragandann að kaupunum.

Aðspurður um horfurnar á byggingarmarkaði segir Þorgeir að félagið líti björtum augum á framtíðina.

„Það er nóg um verkefni eins og er,“ segir Þorgeir og tekur fram að JB byggingarfélag sé með mikinn fjölda íbúða í byggingu víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu.

„Ris er einnig  í miklum framkvæmdum í Hafnafirði, Árbæ, á Vífilstaðavegi og við Vesturlandsveg svo ég nefni nokkur dæmi.“