Innovate Logistics, dótturfélag Eimskips, hefur skrifað undir 10 ára samning við Nestlé UK Ltd, stærsta matvæla- og drykkjarvöruframleiðanda heims, um rekstur á 75.000 bretta kæligeymslu í Bardon, Leicestershire. Heildarvirði samningsins nemur milljörðum króna en hann felur í sér að Innovate byggir vörugeymslu sérstaklega sniðna að þörfum Nestlé og hefur Innovate umsjón með verkinu sem og rekstri geymslunnar næstu 10 árin að því er kemur fram í tilkynningu.

Samningurinn undirstrikar gott samstarf félaganna Innovate og Nestlé og eru báðir aðilar mjög ánægðir með þennan áfanga og fagna ákvörðun um að vinna saman til lengri tíma og að stærri verkefnum en áður. Samningurinn kemur til með að útvíkka samstarf fyrirtækjanna til muna en Nestlé hefur verið einn af stærstu viðskiptavinum Innovate í nokkurn tíma.

Samningurinn er hrein viðbót við núverandi samninga um rekstur Innovate á sérhæfðri vörugeymslu í Scunthorpe og birgðastýringakerfi fyrir vörur frá Nestlé. Nýi samningurinn gildir frá 1. júlí 2007 og er undirbúningsvinna þegar hafin.

Baldur Guðnason, forstjóri Eimskip, segir í frétt félagsins: ?Samningurinn við Nestlé sýnir hversu umfangsmikill rekstur okkar er orðinn og hvaða möguleika við ráðum yfir.. Ein af leiðunum sem við getum boðið viðskiptavinum okkar er að byggja kæligeymslur eftir þeirra hentugleika og stýra geymslu birgða til langs tíma eins og samningurinn við Nestlé felur í sér.?