„Þetta er nýkomið upp. Við munum skoða málið ef ástæða þykir til. Það er ekkert frekar um málið að segja á þessu stigi,“ segir Íris Björk Hreinsdóttir, lögmaður hjá Fjármálaeftirlitinu, í samtali við Viðskiptablaðið.

Eimskipafélagið [ HFEIM ] tilkynnti í síðustu viku um að það hafi afskrifað að fullu dótturfélagið Innovate, sem sérhæfir sig í hitastýrðum flutningum og geymslum í Bretlandi. Bókfært virði hlutarins var um 74,1 milljón evra eða 8,8 milljarðar króna.

Bretar eiga 4,4% hlut í Eimskipafélaginu

Eimskipafélagið keypti 45% hlut í Innovate árið 2006 og yfirtók félagið ári seinna.  Greitt var fyrir 55% hlut í Innovate með því að gefa út aukið hlutafé. Í kjölfarið réðu seljendur Innovate yfir 4,4% hlut í Eimskipafélaginu. Þann hlut eiga þeir enn þá. Markaðsvirði hlutarins er um 1,6 milljarðar króna, samkvæmt upplýsingum frá verðbréfavefnum M5.  Eimskipafélagið hefur lækkað um 58% frá áramótum.

Samkvæmt upplýsingum frá Eimskipafélaginu var ekki gerður árangurstengdur samningur varðandi hlutafjáreign Bretana.

Eimskipafélagið kannar kaupin á Innovate

„Við teljum ástæðu til að kanna ítarlega hvernig að þessum kaupum var staðið.  Það er augljóst að þetta eru mistök af hálfu fyrirtækisins,“ sagði Sindri Sindrason, stjórnarformaður Eimskipafélagsins, í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku.  „Ég held nú að stjórnendur Eimskips, sem að stóðu að þess, hljóti að bera heilmikla ábyrgð,” sagði hann jafnframt.

Sindri sagði í viðtalinu að fyrstu merki um bagalega stöðu Innovate hafi ekki komið á borð stjórnar fyrr en í febrúar.

Stjórnendur Eimskipafélagsins hætta

Magnús Þorsteinsson, starfandi stjórnarformaður Eimskipafélagsins, sagði sig úr stjórn Eimskipafélagsins í lok árs 2007.

Tilkynnt var um að Baldur Guðnason, forstjóri Eimskipafélagsins, hafi látið af störfum í lok febrúar á þessu ári.

Í lok maí tilkynnti Eimskipafélagið að Stefán Ágúst Magnússon, sem tímabundið gegndi stöðu forstjóra Eimskipafélagsins og áður stöðu aðstoðarforstjóra og framkvæmdastjóra fjármálasviðs, hafi að eigin ósk látið af störfum hjá félaginu.

Blæðir sölutrygging fyrrverandi forstjóra

Baldur fékk kaupréttarsamning, líkt og flestir forstjórar hjá skráðu fyrirtækjum, og sölutryggði bréfin 27. apríl á síðasta ári á genginu 37,76.

Þegar hann vék úr starfi, leysti Eimskipafélagið til sín 67,6 milljónir hluta af eigin bréfum vegna sölutryggingar Baldurs í lok apríl á þessu ári. En þá var markaðsgengið undir 25 krónum á hlut.  Það gerir næstum 900 milljónum króna gengistap á kaupréttarsamningi Baldurs, þegar Eimskipafélagið tekur bréfin til sín.

Þegar þetta er skrifað er gengið 14,4. Eimskipafélagið á bréfin enn þá og hefur því allavega tekið á sig um 1,6 milljarða króna gengistap vegna sölutryggingarinnar við fyrrverandi forstjóra. Eimskipafélagið á 5,6% hlut í sjálfu sér.