Umfjöllunin um Dónaldinn, Donald Trump Bandaríkjaforseta, hefur ekki farið fram hjá nokkrum fréttaneytanda.

Þegar horft er til tölvuleita hjá Google er þó nánast eins og hann hafi ekki verið til fyrir forsetaframboðið um mitt ár 2015. Eftir það má hins vegar sjá töluverðan stíganda, en hlutfallslega flestar fyrirspurnir komu í kringum kjördaginn 8. nóvember, sem varla kemur á óvart.

Það má sjá að Bandaríkjamenn hafa skiljanlega verið uppteknari af Trump en fólk í öðrum löndum. Hitt er eftirtektarvert að eftir kjör hans hefur dregið saman með Bandaríkjamönnum og umheiminum að þessu leyti. Má enda segja að nú sé hann ekki síður vandamál heimsins alls.