Eiríkur Finnur Greipssonar, framkvæmdastjóri innréttingafyrirtækisins TH ehf., segir að fyrirtækið njóti vissulega góðs af því að innflutningur á innréttingum hafi nær alveg hrunið. - „Sá hluti er að meiru eða minna leyti kominn í hendur innlendra framleiðenda. Á móti kemur að lítið er af útboðum í opinberum verkum. Því leggjum við mikla áherslu á einstaklingsmarkaðinn. Við höfum haft mikið að gera og það er mikið í pípunum."

Fyrirtækið keypti í sumar eignir Trésmiðju Þráins E. Gíslasonar sf. á Akranesi og tók við rekstri trésmíðaverkstæðisins þann 20. júní. Eiríkur segir að 33 starfsmenn séu nú hjá fyrirtækinu sem sé eitt stærsta og öflugasta innréttingaverkstæðið á Íslandi.

„Við erum með 2.800 fermetra húsnæði og tvöfaldan vélagang af öllum tækjum sem þarf til slíks reksturs í dag."

TH ehf., rekur tvö trésmíðaverkstæði, á Ísafirði og á Akranesi, hefur gert tuga milljóna samning um smíði innréttinga í Fjölbrautarskólann í Ármúla. Verktíminn nær fram á 2011.

Á fyrri hluta næsta árs lýkur félagið við annað stórt verkefni sem er smíði innréttingar fyrir Jáverk ehf., í hjúkrunarheimili að Suðurlandsbraut 66 í Reykjavík.

Höfuðstöðvarnar eru á Ísafirði, en trésmiðjan á Akranesi er einnig í fullum rekstri. Segir Eiríkur að engin áform séu um annað en að halda áfram rekstrinum á báðum stöðum. Hugmyndin sé þó að reyna að sérhæfa verkstæðin á hvorum stað til að sinna ákveðnum verkefnum. Á Ísafirði er t.d. að hefjast framleiðsla á skrifstofuhúsgögnum og búnaði sem Hallvarð Aspelund arkitekt á Ísafirði hefur hannað. Hefur TH unnið að þróun innréttinga með Hallvarði sem fengið hafa heitið "TH Form." Ennfremur er unnið að hönnun og smíði húsgagna í samvinnu við öfluga húsgagna og innréttingaverslun á höfuðborgarsvæðinu.

Aðaleigendur TH ehf., eru Martha Sigríður Örnólfsdóttir, Steinþór Bjarni Kristjánsson, Kaupþing banki hf. og Byggðastofnun sem ráða samanlagt yfir 98,95% hlutabréfa í fyrirtækinu. Sjö aðrir einstaklingar ráða yfir 1,05% hluta.