Dómur Hæstaréttar í Exeter-málinu getur haft víðtækt sönnunargildi, ekki síst hvað varðar sönnunarfærslu. Í grunninn má lesa það út úr dómnum að þótt menn séu að forminu til með sitt á hreinu, t.d. vegna samþykkis stjórnar, þarf það ekki að leiða til sýknu.

Það sjónarmið hefur komið upp að margir þeir sem ákærðir hafa verið, eða verða í framtíðinni, hafi kannski gerst brotlegir við innri reglur viðkomandi bankastofnunar, lánareglur eða starfsreglur, en ekki endilega gerst brotlegir við lög.

Hæstiréttur byggir hins vegar mjög á starfs- og lánareglum Byrs við mat á því hvort hinir ákærðu hafi gerst brotlegir við 249. gr. almennra hegningarlaga, sem fjallar um umboðssvik. Þar eru slík svik skilgreind svo þegar maður, sem hefur aðstöðu til að gera eitthvað sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína. Hæstiréttur segir að í lánareglum Byrs sé mælt fyrir um skyldu til að ganga úr skugga um greiðslugetu og fjárhagslegt heilbrigði lántaka, sem í þessu tilviki var Exeter, auk þess sem þar er að finna ákvæði um veðhlutfall.